Unnið er að því dag og nótt að skrúfa einn risabora Kárahnjúkavirkjunar í sundur og flytja út úr Jökulsárgöngum. Búið er að flytja sjálfan borhausinn út úr göngunum en hann er tæplega fimm metrar í þvermál og gekk flutningurinn á köflum erfiðlega.
Ástæðan er sú að stór hluti ganganna er sex metrar í þvermál. Stærsti höfuðverkurinn verður svo að koma legunni fyrir borkrónuna út en hún er hátt í sex metrar í þvermál. Á nokkrum stöðum hefur verið fleygað úr berginu til að tryggja að göngin séu nógu víð fyrir flutning legunnar.