Ríkisstjórnin, að fenginni tillögu frá viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, hefur ákveðið að leggja fjórar milljónir króna í verkefni til þess að stemma stigu við hækkun verðlags sem tengjast lækkun á gengi krónunnar og hækkunar hrávöruverðs.
„Sökum lækkunar á gengi íslensku krónunnar og hækkunar hrávöruverðs á alþjóðlegum mörkuðum hefur skapast nokkur þrýstingur til hækkunar verðlags. Nauðsynlegt er að gripið verði til víðtækra aðgerða til að stemma stigu við þessari þróun og draga úr hraða verðbólgu næstu misseri. Hefur viðskiptaráðuneytið farið ítarlega yfir þá þætti sem undir ráðuneytið heyra.
Af þessu tilefni hefur viðskiptaráðherra fundað með fulltrúum hagsmunahópa neytenda og launþega; Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúum verslunarfyrirtækja og birgja; Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi stórkaupmanna og Samtökum atvinnulífsins; sem og Neytendastofu. Á fundunum kom fram fjöldi gagnlegra ábendinga um skynsamlegar aðgerðir við núgildandi aðstæður.
Að teknu tilliti til sjónarmiða ofangreindra aðila samþykktir ríkisstjórnin að tillögu viðskiptaráðherra að farið verði í eftirfarandi aðgerðir og leggur ríkisstjórnin 4 milljónir króna til þessara verkefna:
1. Ríkisstjórnin felur hagdeild Alþýðusambands Íslands að framkvæma sérstakt átak í verðlagseftirliti og fylgjast með þróun vöruverðs með tíðari hætti en áður og miðli niðurstöðum sínum til almennings. Nauðsynlegt er að almenningur fái greinargóðar upplýsingar um verðþróun einstakra aðila á markaði sem og þróun á verði í einstökum vöruflokkum. Slíkt er forsenda þess að neytendur geti hagað innkaupum sínum og neyslumynstri með skynsamlegum hætti á tímum örra verðbreytinga.
2. Neytendastofa mun fara í sérstakt átak í eftirliti með verðmerkingum á vöru og þjónustu og endurskoða þær reglur sem gilda um verðmerkingar. Stefnt er að því að kveðið verði á um viðurlög í þeim tilvikum þegar reglum er ekki fylgt. Viðurlög verða í formi sekta og ákvarðanir birtar á heimasíðu Neytendastofu. Nýjar reglur Neytendastofu um útsölur, sem settar eru í þeim tilgangi að stemma stigu við villandi tilboðum, verða kynntar sérstaklega.
3. Skipaður verði sérstakur starfshópur fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis til að endurskoða reglur um netverslun, einkum frá öðrum löndum EES-svæðisins, með það að markmiði að auka samkeppni og lækka vöruverð.
4. Ráðist verði kynningarátak í samstarfi við Neytendasamtökin í þeim tilgangi að virkja neytendur betur á vörumarkaði, hvetja þá til að gera verðsamanburð, koma ábendingum um verðlag til Neytendastofu og Neytendasamtaka og gæta að eigin hagsmunum við kaup á vöru og þjónustu.
5. Leitað verði samstarfs við Samtök verslunar og þjónustu um aukna hagræðingu í verslunarrekstri," samkvæmt tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu.
ASÍ framkvæmir verðkannanir
Viðskiptaráðherra mun funda með forseta Alþýðusambands Íslands, forstjóra Neytendastofu og formanni Neytendasamtakanna klukkan 11 í dag um framkvæmd ofangreindra aðgerða. Þar verður meðal annars skrifað undir samning við ASÍ um framkvæmd verðkannana.