Með því að vera á varðbergi gagnvart óeðlilegum verðhækkunum og tilkynna þær til Neytendasamtakanna geta almennir neytendur lagt sitt að mörkum til að sporna við verðbólgu.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að mikið berist nú þegar af ábendingum um verðhækkanir sem neytendum þyki óðelilegar, og í öllum tilvikum sé viðkomandi verslun eða þjónustuaðila send fyrirspurn og rukkað um útskýringar.
Jóhannes segir að samstarf samtakanna og Neytendastofu, sem rætt hafi verið í morgun er viðskiptaráðherra greindi frá aðgerðum til að stemma stigu við hækkun verðlags, sé mikilvægt þar sem Neytendastofa geti rannsakað og metið verðhækkanir.
Neytendur geti veitt fyrirtækjum mikilvægt aðhald með því að hafa vakandi auga með verðhækkunum.