Borgarstjóri segir yfirlýsingar Sóleyjar ekki réttar

Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri vísar yfirlýsingum Sóleyjar Tómasdóttur, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna um að afstaða hans í mannréttindamálum sé byggð á vanþekkingu og fordómum gagnvart minnihlutahópum, á bug í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér. 

„Vísað er á bug yfirlýsingum Sóleyjar Tómasdóttur, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna um að afstaða borgarstjóra í mannréttindamálum sé byggð á vanþekkingu og fordómum gagnvart minnihlutahópum.

Borgarstjóri hefur þvert á móti lagt áherslu á þennan málaflokk með ýmsu móti, ekki síst þá þætti er varða málefni minnihlutahópa . Unnið er markvisst að margvíslegum mannréttindaverkefnum sem tilheyra hinum ýmsu sviðum borgarinnar.

Nú þegar hefur verið unnið að því að kynna mannréttindastefnu borgarinnar s.s. með þýðingu hennar á fimm tungumál, opnuð hefur verið heimasíða mannréttindaskrifstofu og verið er að leggja lokahönd á verkáætlun í málefnum innflytjenda. Einnig eru starfandi ýmsir starfshópar á vegum mannréttindaráðs eins og t.d. um möguleika á atvinnuþátttöku fatlaðra og öryggi á og við veitingastaði borgarinnar.

Bent er á að heimild til að ráða þrjá stjórnendur á mannréttindaskrifstofu var samþykkt þann 18. desember sl. í tíð hundrað daga meirihlutans þegar Sóley Tómasdóttir var formaður mannréttindanefndar. Hún og hundrað daga meirihlutinn höfðu því rúman mánuð til að ráða í þessar stöður, sem þau gerðu þó ekki.

Þá er einnig á það bent að í tíð  hundrað daga meirihlutans, í nóvember sl. var enginn starfsmaður á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í fjórar vikur, meðan mannréttindastjóri var í námsleyfi

Ákvörðun meirihlutans í borgarstjórn nú að gera skipulagsbreytingar á starfsemi mannréttindaskrifstofu borgarinnar miðar að því að nýta betur þann mannauð sem nú þegar starfar að mannréttindamálum á öllum sviðum borgarinnar en alls starfa níu mannréttindafulltrúar innan borgarkerfisins. Með skipulagsbreytingunum gefst meira svigrúm til að styrkja einstök verkefni sem nýtast munu beint í þágu borgarbúa," að því er segir í yfirlýsingu frá borgarstjóra.

Blogg Sóleyjar Tómasdóttur 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka