Engin kennsla er á unglingastigi í Brekkubæjarskóla á Akranesi í dag vegna forfalla kennara. Fimm kennarar við skólann eru í veikindafríi í dag, samkvæmt upplýsingum Arnbjargar Stefánsdóttir skólastjóra.
Auk þess sem kennsla á unglingastigi fellur niður fellur niður kennsla hjá einum yngri bekk eftir hádegi. Verða börnin þá í gæslu skólaliða.
Samþykkt kennara á Akranesi um að taka ekki að sér neina forfallakennslu eða tilfallandi yfirvinnu kom til framkvæmda í síðustu viku en kennarar í bænum hafa farið fram á að fá sambærilegar álagsgreiðslur og kennarar á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið. Því hefur hins vegar ítrekað verið hafnað af bæjaryfirvöldum í bænum. Trúnaðarmaður kennara átti fund með fulltrúum bæjaryfirvalda á föstudag en ekki liggur neitt fyrir um niðurstöður þess fundar.