Engin rök fyrir örvandi aðgerðum ríkisins

mbl.is/Ómar

Seðlabankinn telur, að engin rök séu fyrir því, miðað við núverandi upplýsingar, að beita ríkisfjármálum til að örva efnahagslífið á yfirstandandi ári hvað sem síðar kunni að verða. Segir bankinn, að í ljósi efnahagsaðstæðna hefði verið æskilegt að opinber fjármál væru sem aðhaldssömust í ár þar til að svo mikið hafi dregið úr spennu í þjóðarbúskapnum að verðbólga geti hjaðnað hratt.

Þetta kemur fram í svari, sem bankastjórar Seðlabankans hafa sent Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, við ýmsum spurningum um efnahagsmál. Framsóknarflokkurinn birtir bréfið á heimasíðu sinni.

Í svörum bankans segir einnig, að það hvað stýrivextir séu háir sé vitnisburður um, að æskilegt hefði verið að aðhald í opinberum fjármálum væri meira en reyndin varð. Það eigi enn við í upphafi þessa árs. Nú stefni hins vegar í talsverðan samdrátt í efnahagslífinu, sem að mati Seðlabankans kunni að veikja verulega tekjur ríkissjóðs og auka útgjöld.  Takmarkað svigrúm virðist vera til að mæta samdrættinum umfram það sem þegar hafi verið ákveðið.

Bréf Seðlabankans

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert