Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusamband Íslands, segir að þótt menn hafi gert sér ljóst að verðbólga væri að aukast hafi þær tölur sem birtar voru í morgun verið mun hærri en nokkur hafi getað ímyndað sér. Þá lýsir hann áhyggjum af því sinnuleysi sem virðist ríkja varðandi málið í þjóðfélaginu.
„Þetta er bara alveg skelfilegt,” sagði Grétar er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í morgun. „Við erum að sjá það núna að þær staðhæfingar sem settar hafa verið fram á undanförnum vikum, um að botninum væri náð og jafnvægi að komast á, standast bara ekki. Við erum að sjá öll einkenni óðaverðbólgu og það sem mér finnst eiginlega verst er það hvað margir virðast reiðubúnir til að ganga á lagið og notfæra sé þetta með því að hækka verð hvort sem rök eru fyrir þeim hækkunum eða ekki,” sagði hann. „Mér sýnast til dæmis hækkanir á áburði og kornvörum ekki vera í neinu samhengi við þróunina á alþjóðavettvangi.”Grétar segir að síðast er verbólgudraugurinn hafi gert vart við sig hér á landi hafi stemningin í þjóðfélaginu verið allt önnur en hún sé nú. Þá hafi allir aðilar verið reiðubúnir til að taka höndum saman og koma í veg fyrir að ástandið versnaði enn frekar.
Hann segir einnig að þótt hækkanir á alþjóðamörkuðum skýri ákveðnar verðhækkanir skýri þær alls ekki allar þá hækkanir sem hér hafi orðið. Til að sannreyna þetta muni Alþýðusambandið fylgjast náið með ástandinu í nágrannalöndunum á næstunni og bera það saman við þróunina hér á landi.
Grétar segist hafa miklar áhyggjur af því að verðlagshækkanir og hækkanir á verðtryggðum lánum muni verða til þess að stór hópur fólks muni lenda í meiriháttar greiðsluerfiðleikum á næstu mánuðum, ekki síst ungt fólk sem standi í húsnæðiskaupum. Einnig segist hann hafa miklar áhyggjur af atvinnustiginu næsta haust og vetur.
Spurður um áhrif þessarar þróunar á vinnumarkaði segir Grétar að endurskoðunarákvæði í kjarasamningum verði virkt í upphafi næsta árs og að hann sjái ekki fyrir það kraftaverk sem geti komið í veg fyrir að það ákvæði verði nýtt.
„Þetta er alveg grafalvarlegt mál,” segir hann. „Það þýðir ekki lengur að bíða og vona. Nú verðum við bara að bretta upp ermarnar og taka á málinu í sameiningu," sagði hann.