Hollvinir Hallargarðsins boða til fundar þar sem starfsemi samtakanna verður kynnt og samningur Reykjavíkurborgar og Novator um söluna á Fríkirkjuvegi 11 verður kynntur.
Á fundi í Hallargarðinum 20. apríl s.l. ákváðu um 150 fundarmenn að stofna til samtaka til að tryggja að Hallargarðurinn verði ekki skertur fyrir almenning.
Stofnaður var sérstakur undirbúningshópur, sem nú boðar til framhaldsstofnfundar.
Framhaldsstofnfundurinn verður í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar í JL-húsinu, Hringbraut 121, á morgun, þriðjudaginn 29. apríl kl. 20-22.
Á dagskrá eru
1. Samþykktir Hollvina Hallargarðsins og verkefnin framundan: Þorgrímur Gestsson blaðamaður og rithöfundur fh. undirbúningshópsins.
2. Stjórnarkjör
3. Hallargarðurinn fyrr og nú: Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands
4. Kynning á samningi Reykjavíkurborgar og Novators um Fríkirkjuveg 11 og þeim breytingum hann hefur í för með sér í Hallargarðinum: Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi
5. Önnur mál.
Fundurinn er öllum opinn. Vakin er athygli á því að enda þótt borgarráð hafi samþykkt kaupsamning við Novator þá á borgarstjórn síðasta orðið þar sem samningurinn þarf staðfestingu meirihluta borgarfulltrúa.