Kristján Möller samgönguráðherra segir að núverandi samningur við rekstraraðila Breiðafjarðarferjunnar Baldurs verði tekinn til endurskoðunar við næstu endurskoðun samgönguáætlunar í ljósi þess hvernig gengur að bæta vegasamband við suðurhluta Vestfjarða.
Samkvæmt núgildandi samningi við rekstraraðila Baldurs er gert ráð fyrir stiglækkandi opinberum stuðningi við ferjusiglingarnar yfir Breiðafjörð á næstu árum og mun það hafa í för með sér að ferðum ferjunnar fækkar og leggjast þær að mestu af yfir vetrartímann þegar samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda. Samgönguráðherra hefur fengið áskoranir frá bæjarstjórnum og félögum um að endurskoða þessar áætlanir, nú síðast frá Félagi Vinstri grænna í Stykkishólmi. Þar er skorað á ráðherra að ganga nú þegar til samninga við Sæferðir vegna ferða Baldurs. Markmiðið þurfi að vera að tryggja áfram og til lengri tíma óbreyttan ferðafjölda og þjónustu ferjunnar yfir fjörðinn, segir í ályktun félagsins.
Kristján segir að áætlanir um niðurtröppun opinbers stuðnings við ferjusiglingarnar hafi tekið mið af bættu vegasambandi við suðurhluta Vestfjarða og þar með bættum samgöngum við landshlutann. Hann segir að vegabæturnar hafi gengið hægar en áformað var en unnið sé að undirbúningi og framkvæmd stórra verkefna. Telur hann eðlilegt að endurskoða áform um ferjusiglingar þegar vegamálin skýrast betur enda hafi markmiðið verið að bæta samgöngurnar en ekki hafa þær verri. Ráðherra tekur fram að engar ákvarðanir hafi verið teknar um málið en von sé á því að það verði skoðað við endurskoðun vegaáætlunar sem áformuð er í haust.