Skora á Össur að hafna leyfum

Sól Á Suðurlandi skorar á Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að hafna umsóknum Landsvirkjunar um virkjanaleyfi í Þjórsá. Þá skora samtökin á sveitarstjórnir að hafna framkvæmdaleyfum og minna á loforð sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að setja virkjun ekki inn á aðalskipulag fyrr en samið hefði verið við landeigendur.

„Landsvirkjun ætlar að byrja að virkja Þjórsá, jafnvel þótt samningum við landeigendur sé ólokið,“ segir í ályktun samtakanna. „Eignarnám vatnsréttindahafa við Þjórsá blasir því við, þvert á gefin loforð ráðamanna, nema ráðherrar Samfylkingar grípi inn áður en það verður of seint. Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lýst því yfir að eignarnám komi ekki til greina vegna virkjana í neðri hluta Þjórsá. Þeir hljóta því að stöðva slík áform strax: Landsvirkjun hefur tímasett framkvæmdir við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Tímasetningarnar hafa þó aðeins verið kynntar sveitarstjórnarmönnum en ekki almenningi. Sérstaka athygli vekur að Landsvirkjun ætlar að sækja um virkjanaleyfi til iðnaðarráðherra vegna Hvamms- og Holtavirkjunar nú á næstu vikum og vegna Urriðafossvirkjunar í ársbyrjun 2009. Sækja á um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórna fyrir Hvamms- og Holtavirkjun í sumar og fyrir Urriðafossvirkjun í mars á næsta ári.

Samningum við landeigendur á að ljúka í júlí á næsta ári.“ Í áskorun samtakanna segir að þetta hafi komið fram á fundi Landsvirkjunar með sveitarstjórnarmönnum í byrjun apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert