Stuðningur við framboð til Öryggisráðs eykst

Samkvæmt nýjustu viðhorfskönnun Capacent Gallup fyrir utanríkisráðuneytið um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, eru 46,5% aðspurðra hlynnt því að Íslendingar bjóði sig fram til öryggisráðsins, 36,1% er andvígt og 17,4% taka ekki afstöðu.

Kristín A. Árnadóttir, stjórnandi framboðs Íslands til öryggisráðs SÞ, segir ljóst að umræða um málið hafi mjög mikla þýðingu. Í september 2005 hafi 27,9% verið hlynnt framboði Íslendinga, 53% andvíg og 19,1% hafi ekki tekið afstöðu. Þá hafi verið mjög mikil neikvæð umræða, meðal annars á Alþingi, um kostnað við framboðið. Um mitt ár í fyrra hafi spurningin verið endurtekin og síðan á sex vikna fresti.

Kristín segir að í fyrrasumar hafi komið fram meiri stuðningur ríkisstjórnarinnar við framboðið en áður og fyrirliggjandi upplýsingar um kostnað hófstilltari en fyrr. Samfara aukinni umræðu og auknum upplýsingum hafi fólk frekar tekið afstöðu til málsins og stuðningur aukist við framboðið.

Spurningin er í reglulegum skoðanavagni Capacent Gallup. Úrtakið var 1.380 manns á öllu landinu, 16-75 ára, handahófsvalið úr þjóðskrá. Um símakönnun var að ræða 9.-21. apríl sl. og var svarhlutfall 61,3%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert