Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði á Alþingi í dag, að þótt bráðabirgðauppgjör eftir fyrstu þrjá mánuði ársins hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða forsendur fjárlaga yfirstandandi árs sé full ástæða til að fjárlaganefnd setjist nú yfir málið í ljósi efnahagsþróunar í apríl.
Þingmenn ræddu um efnahagsmál í upphafi þingfundar að frumkvæði Bjarna Harðarsonar, þingmanns Framsóknarflokks. Kristján Þór sagði ljóst, að fljótt muni slá á einkaneyslu og menn muni taka tillit til þess við fjárlagagerð fyrir næsta ár. Hann sagði, að eftir góðæri undanfarinna ára væru þrjú heimatilbúin atriði sem yllu spennu í hagkerfinu: mikill kaupmáttur fólks, lítið verðskyn og skortur á samkeppni í verslun.
Siv Friðleifsdóttir sagði, að mikinn hluta vandans mætti rekja til framtaksleysis ríkisstjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin hefði tekið upp sið strúta, að stinga höfðinu í sandinn og gera ekki neitt.
Árni Páll Árnason, sagði að verðbólgutölurnar, sem nú sæjust, væru grafalvarlegar og aðför að hagsmunum heimilanna. Þjóðarátak þyrfti gegn þeirri sjálfvirku hrynu verðhækkana, sem komin væri í gang. Árni Páll sagði, að þess vegna hlytu menn að kalla eftir því, að fyrirtækin legðust á árarnar með Alþýðusambandi Íslands og vinni að því að endurheimta stöðugleikann í landinu. Ríkisstjórnin muni að sjálfsögðu taka þátt í þessari vegferð.
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að fyrirtæki hefðu einmitt hvatt til þess að aðhald yrði í ríkisfjármálum á yfirstandandi ári. Fullkomlega væri ábyrgðarlaust hjá Árna Páli, að reyna að kenna fólkinu í landinu eða fyrirtækjum um stöðuna nú; þá ábyrgð bæri ríkisstjórnin ein.