Forstjóri LSH: Mikil vonbrigði

Forstjórar LSH.
Forstjórar LSH. mbl.is/Brynjar Gauti

„Skiljanlega eru þetta mikil vonbrigði. Við réttum fram sáttahönd í gær en það var slegið á hana," sagði Anna Stefánsdóttir í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins hún sagði að stjórn LSH hefði gjarnan viljað verða við áskorunum og sjónarmiðum hjúkrunarfræðinga um meira samráð.

Anna sem er settur forstjóri LSH sagði að sjúkrahúsið hefði ekki annarra kosta völ en að breyta vinnutíma vegna vinnutímatilskipunar ESB og breytingu á lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

 Nítíu og sex skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum en alls starfa um 120 til 130 slíkir við LSH. Anna sagði að verið væri að vinna að neyðaráætlun í ljósi yfirlýsingar um að uppsagnirnar skuli standa og verði hún kynnt á morgun.

Vildu velta upp fleiri hugmyndum 

„Við vildum velta upp fleiri hugmyndum  en þeim sem liggja fyrir núna og eftir að þessi ákvörðun var tekin í gær að fresta að þá hafa kviknað hugmyndir til lausnar sem að við hefðum gjarnan vilja ræða við fulltrúa hjúkrunarfræðinga á skurð- og svæfingadeild," sagði Anna.

Unnið að neyðaráætlun 

Anna sagði að neyðaráætlun fæli í sér forgangsröðun aðgerða og lagði ríka áherslu á að engin líf vær í hættu og að allar neyðarskurðaðgerðir væru framkvæmdar. Aðspurð sagði hún að ekki stæði til að flytja inn starfsfólk erlendis frá til að bregðast við þessum bráðavanda sem nú er kominn upp. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka