Hringrásarhaugur hættulega hár

Umfang haugsins á svæði Hringrásar er gríðarlegt.
Umfang haugsins á svæði Hringrásar er gríðarlegt.

Gríðarlegt magn gúmmís hefur safnast upp á athafnasvæði endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar í Sundahöfn. Starfsleyfisskilyrði Hringrásar voru þrengd verulega eftir stórbruna á athafnasvæði fyrirtækisins í nóvember 2004.

 Samkvæmt núgildandi skilyrðum er hámarksmagn gúmmís sem má geyma á svæðinu 1.000 rúmmetrar. Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar sem fóru á svæðið 21. apríl síðastliðinn mátu hins vegar að magnið væri að minnsta kosti 1.200 rúmmetrar. 

Hringrás var sent bréf 23. apríl þar sem farið var fram á að birgðir af gúmmíi á svæðinu yrðu tafarlaust minnkaðar. Þegar heilbrigðisfulltrúi fór á vettvang í gær mat hann það hins vegar svo að magnið hefði síst minnkað.

 Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits og vöktunar hjá Reykjavíkurborg, segir því ljóst að fyrirtækið hafi ekki brugðist við tilmælum eftirlitsins.

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Næsta skref er bara að gera fyrirtækinu að stöðva alla móttöku á þessum úr gangi og fara strax í aðgerðir til að minnka magnið niður fyrir þau mörk sem leyfð eru. Það verður gert strax og vonandi dugar það til.“ 

Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir að verið sé að flytja gúmmí af svæðinu í hverri viku.

„Ég held að stærð haugsins sé nú þegar orðin undir þúsund rúmmetrum, ef hún var þá einhvern tímann 1.200 rúmmetrar eins og sagt var. Þetta er stöðug vinnsla og ég tel að það sé ekki rétt mat hjá heilbrigðisfulltrúa að ekki hafi gengið á rúmtak gúmmíhaugsins á svæðinu hjá okkur. Sennilega er bara um misskilning að ræða. Við flytjum umtalsvert meira út en við tökum inn til okkar þannig að tölurnar tala sínu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert