Björn Zoëga, annar forstjóri Landspítala, sagði á ársfundi spítalans í dag, að hann telji nauðsynlegt að gera hið fyrsta breytingar á fjárveitingum til spítalans þannig að stór hluti þeirra verði breytilegur og tengist starfseminni í ríkara mæli. Fé þurfi að fylgja verkum sem unnin eru.
„Rekstur spítalans hefur oft á tíðum verið umdeildur, m. a. vegna hallarekstrar sem háð hefur starfseminni undanfarin ár. Á þessu ári verður unnið nánar en áður að því að skipuleggja starfið með stjórnendum sviða svo þau megi ná rekstrarmarkmiðum við lok árs," sagði Björn.
Hann sagði, að ákveðið hefði verið, að beina sjónum okkar sérstaklega að verklagi innan spítalans en þar felist tækifærin fyrst og fremst í því að samræma verklag og vinnuferla. Með því megi koma í veg fyrir tvíverknað, efla gæði og bæta nýtingu fjármuna. Samhliða skapist tækifæri til vísindarannsókna.
„Nú er sérleg brýnt að nýta tækifærið til þess að skapa nýtt verklag sem verður grunnurinn að farsælli starfsemi í nýrri byggingu," sagði Björn.