Samninganefnd HugGarðs og Ljósmæðrafélags Íslands ákvað í morgun að vísa kjaraviðræðum við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara. Viðræður aðila hafa staðið frá 18. mars og renna kjarasamningar félaganna við ríkið út á miðnætti annað kvöld.
Í tilkynningu frá samninganefndinni segir, að eftir árangurslausan samningafund í morgun hafi samninganefnd HugGarðsfélaga og Ljósmæðrafélags Íslands hafnað tilboði samninganefndar ríkisins frá 15. apríl s.l. Tilboðið hljóðaði upp á kjarasamning til 30. september 2011, eða í 3 ½ ár, með þremur krónutöluhækkunum á laun, þ.e. 18.000 krónur þann 1. maí 2008, 13.500 krónur 1. maí 2009 og 6500 krónur 1. janúar 2010, ásamt hækkunum á persónuuppbótum.
Félögin lýstu yfir vilja til að semja til eins árs án forsenduákvæða ásamt prósentuhækkunum á launatöflu. Ennfremur mótmæltu stéttarfélögin þeirri miklu skerðingu á kaupmætti félagsmanna sem í tilboðinu fólst.
Í ljósi þess hve mikið bar á milli samningsaðila ákvað samninganefnd HugGarðsfélaga og Ljósmæðrafélags Íslands að vísa viðræðum til ríkissáttasemjara og var það gert í dag. Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar á mánudaginn kl. 12:15.
Að HugGarði standa Félag íslenskra fræða - kjaradeild, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Útgarður, félag háskólamanna.