Lýsing Vegagerðarinnar á aðstæðum á vegum landsins nú síðdegis er heldur vetrarleg. Þannig er hálka og skafrenningur, á Holtavörðuheiði, hálkublettir á Bröttubrekku, skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði, hálka og skafrenningur á Þverárfjalli, hálka og krapi á milli Hofsóss og Siglufjarðar og víða mjög mikil hálka eða snjóþekja, éljagangur og skafrenningur á Norðausturlandi.
Varað er við óveðri á Mývatnsöræfum og mjög slæmri færð. Þæfingur er á Hólasandi og á milli Raufarhafnar og Þórshafnar. Á Austurlandi er þungfært um Möðrudalsöræfi og Fjarðarheiði og þar er ekkert ferðaveður. Þæfingur er á Vopnafjarðarheiði og Sandvíkurheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal. Hálkublettir og skafrenningur er á Oddskarði. Þungfært er á Breiðdalsheiði og ófært er yfir Öxi.
Á Suðausturlandi er víðast hvar greiðfærir fyrir utan sandfok á Mýrdalssandi og óveður er undir Eyjafjöllum.