„Við erum að hreinsa ósprungnar sprengjur í þorpum, á bananaekrum, á allskonar svæðum. Við erum að gera fólki kleift að búa þarna áfram. Verkið hefur gengið mjög vel,“ segir Sigurður Ásgrímsson, fagstjóri sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar um þátttöku Íslendinga í sprengjuleit í Líbanon.
„Þetta er í annað skiptið sem við hjá Landhelgisgæslunni förum til Líbanon. Við erum þarna á vegum íslensku friðargæslunnar vegna samnings sem felur í sér að við útvegum sjálfboðaliða í þetta verkefni sem friðargæslan greiðir síðan fyrir.
Við sendum tvo menn rétt eftir miðjan mars, þá Jónas Þorvaldsson og Alexander Rúnarsson, sem eru komnir heim. Þeirra í stað héldu utan þeir Marvin Ingólfsson og Martin Sövang, en þeir verða í Líbanon til 6. júní. Það sem við erum að gera er að starfa að mannúðarverkefni með Svíum undir því sem nefnt er regnhlíf Sameinuðu þjóðanna.“
Sigurður segir sérfræðinga Landhelgisgæslunnar fást við ýmsar gerðir af sprengjum, þar með taldar klasasprengjur og stórar sprengjur, en Ísraelsher beitti m.a. fyrrnefndu gerðinni í átökum við skæruliða Hizbollah-hreyfingarinnar í Suður-Líbanon sumarið 2006. Stór hluti sprengnanna er frá þeim tíma.