Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segist telja að lögregla hafi haft fullt tilefni til að grípa til aðgerða vegna mótmæla atvinnubílstjora á Suðurlandsvegi við Rauðavatn í síðustu viku. Nefndin fjallaði um málið í dag og ræddi við fulltrúa bílstjóra og lögreglu.
Fundurinn var haldinn að beiðni þriggja nefndarmanna stjórnarandstöðunnar, sem vildu fá nánari lýsingar á atburðarásinni við Rauðavatn þann 23. apríl.
Á fundinn komu Stefán Eiríksson og Hörður Jóhannesson, frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ásamt fulltrúa dómsmálaráðuneytis. Þá kom Sturla Jónson, talsmaður vörubílstjóra, á fundinn ásamt lögmanni sínum.
Birgir segir, að farið hafi verið yfir atburði dagsins frá sjónarhóli beggja aðila og ljóst sé að mikið beri á milli í frásögnum aðila af atburðum sem áttu sér stað þennan dag.
Birgir segir nefndina fyrst og fremst hafa viljað fá þessar lýsingar beint og milliliðalaust frá aðilum sem tengdust málinu og bætir við að ekki verði um framhald að ræða á vegum nefndarinnar. Birgir segir að þó það sé á verksviði allsherjarnefndar að fara yfir lög og reglur sem varða lögregluna og réttarvörslu í landinu, sé nefndin ekki í hlutverki rannsóknar- eða úrskurðaraðila í málum af þessu tagi.
„Mitt persónulega mat er að lögregla hafi haft fullt tilefni til aðgerða af sinni hálfu, ekkert sem kom fram á þessum fundi gefur mér tilefni til þess að ætla að lögregla hafi gengið of langt miðað við þær erfiðu aðstæður sem þar voru uppi," segir Birgir
Birgir segir að ef einhver telur að harðræði hafi verið beitt gegn sér af hálfu lögreglu á sá aðili fullan rétt á því að bera slík mál undir dómstóla, og segir Birgir að ekki sé útilokað að til þess komi í þessu tilviki. „Dómstólar eru hinn rétti vettvangur til þess að skera úr um slík mál," segir Birgir.