Heilbrigðiseftirlitið stöðvar móttöku dekkja hjá Hringrás

Dekkjahaugur Hringrásar.
Dekkjahaugur Hringrásar.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar stöðvaði í gær frekari móttöku á hjólbörðum hjá fyrirtækinu Hringrás. Eins og sagt var frá í 24 stundum í gær er magn gúmmís á athafnasvæði Hringrásar orðið meira en leyfilegt er samkvæmt starfsleyfisskilyrðum fyrirtækisins.

Heilbrigðiseftirlitið fór fram á að magn gúmmís yrði minnkað en samkvæmt skoðun í fyrradag hafði ekki verið orðið við þeim tilmælum. „Þetta eru þvingunaraðgerðir af okkar hálfu því við erum að hluta til að stöðva starfsemi þeirra“ segir Árný Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins.

Bjarni Kjartansson sviðsstjóri forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins segir það stóralvarlegt mál að Hringrás brjóti gegn starfsleyfisskilyrðunum. „Það er alls ekki forsvaranlegt að Hringrás skuli ekki virða skilmálana. Starfsleyfið er gefið út með tilliti til aðstæðna og þær breytast auðvitað ef það er ekki virt. Það segir sig sjálft að geymsla á svona úrgangi í nálægð íbúðabyggðar er engin óskastaða með tilliti til brunavarna og þess vegna er sérstaklega ámælisvert ef reglum er ekki fylgt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert