Enn unnið að lausn deilunnar

Ekki liggur enn fyrir hversu margir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar á Landspítalan standa við uppsagnir sínar og ganga út á miðnætti. Helga Kristín Einarsdóttir, sviðsstjóri hjúkrunar á svæfingar-, skurð-, og gjörgæslusviði,  segir að fundað hafi verið með hjúkrunarfræðingum í morgun en að hún eigi þó ekki von á að línur skýrist fyrr en um klukkan fimm í dag. 

„Umræðurnar í morgun voru málefnalegar en það er auðvitað spenna í loftinu,” sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag. „Við vonum enn að allir verði áfram hjá okkur en það liggur enn ekki fyrir.”

Hjúkrunarfræðingar munu halda fund klukkan fjögur í dag og yfirstjórn Landspítalans mun hittast á fundi um mál þeirra klukkan fimm. Segist Helga Kristín því gera ráð fyrir að línur muni skýrast á þeim tíma. Þá segist hún vera bjartsýn enda hafi hún alltaf trú á því að þegar tveir deili að hægt sé að finna einhverja lausn.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert