Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) segir að það að fela hagdeild ASÍ að framkvæma sérstakt átak í verðlagseftirliti er ekki til þess fallið að skapa traust. Segir í tilkynningu frá FÍS að tilkynning viðskiptaráðuneytisins um aðgerðir sé í litlu samræmi við það sem fram fór á fundi fulltrúa FÍS með ráðherra fyrir skömmu.
Fulltrúar FÍS áttu fund með viðskiptaráðherra fyrir skömmu til þess að ræða þá alvarlegu stöðu sem uppi er í gengismálum, erlendum verðhækkunum og innlendum kostnaðarhækkunum og þau áhrif sem þessi staða hefur á rekstrarumhverfi fyrirtækja innan félagsins. Á fundinum var ráðherranum gerð ítarleg grein fyrir því hvaða aðstæður hefðu skapast í greininni. Ekki var annað að sjá en að ráðherrann hefði fullan skilning á því og þeim áhrifum sem þessar gerbreyttu aðstæður hefðu á verðlag í landinu, samkvæmt tilkynningu frá FÍS.
Telja ASÍ geti ekki framkvæmt verðlagseftirlit á hlutlausan hátt
„Fréttatilkynningin sem viðskiptaráðuneytið sendi frá sér er í litlu samræmi við það sem fram fór á fundi fulltrúa FÍS með ráðherranum. Að fela hagdeild ASÍ að framkvæma sérstakt átak í verðlagseftirliti er ekki til þess fallið að skapa traust. Bæði formaður og hagfræðingur ASÍ hafa látið hafa það eftir sér að fyrirtæki í verslun hafi hækkað vöruverð langt umfram þörf, án þess að hafa þurft að finna orðum sínum stað. Er líklegt að samtök þar sem forsvarsmenn hafa svo fyrirframmótaðar skoðanir á þessum málum, geti framkvæmt verðlagseftirlit á hlutlausan hátt? FÍS er þeirrar skoðunar að svo sé ekki.
Það sem vekur þó mesta furðu er að ráðherrann skuli láta hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali að fyrirtækin fresti hækkunum og jafnvel lækki verð.
Ætlast viðskiptaráðherra virkilega til þess að verslunin í landinu taki á sig afleiðingar gengisbreytinga undangenginna vikna upp á tugi prósenta, afleiðingar erlendra hráefnishækkana upp á tugi prósenta og afleiðingar innlendra kostnaðarhækkana, einnig upp á tugi prósenta? Er ráðherrann að fara fram á það við fyrirtækin að þau jafnvel stundi undirverðlagningu á vöru og þjónustu? Er ráðherrann að ætlast til þess fyrirtækin hagi rekstri sínum þannig að hann sigli í kaf?"
Nær fyrir stjórnvöld að líta í eigin barm
Segir í tilkynningu FíS að það væri nær að stjórnvöld litu í eigin barm gripu til aðgerða sem eru í þeirra valdi.
„Lánsfjárskorturinn í landinu er á góðri leið með að stöðva allar framkvæmdir. Gengis- og gjaldmiðilsmálin verður að leysa. Hvernig væri að lækka eða afnema álögur á innfluttar búvörur? Hvernig væri að stjórnvöld gripu til aðgerða til að stemma stigu við því vaxtaokri sem fyrirtæki og einstaklingar búa við? Þetta eru aðgerðir sem stjórnvöld hafa í hendi sér að grípa til og myndu strax hafa jákvæð áhrif.
Það er erfitt fyrir eina atvinnugrein að sitja undir þeim stöðuga áróðri sem verslunin hefur mátt þola að undanförnu. Það er vandasamt að bera hönd yfir höfuð sér þegar áróðurinn er svo gengdarlaus sem raun ber vitni.
Fullyrða má að fyrirtæki innan FÍS finni til fullrar ábyrgðar. Þau ætla sér alls ekki að maka krókinn á því ástandi sem nú ríkir í gengis- og verðlagsmálum. Fyrirtækin gera hins vegar kröfu til þess að njóta sammælis í opinberri umræðu. Það er engum til framdráttar að benda stöðugt á sökudólga í umræðunni. Viðfangsefnið er að ná tökum á því alvarlega ástandi sem nú ríkir i efnahagsmálum hér á landi. Þar hafa stjórnvöld lykilhlutverki að gegna og bíður allt atvinnulífið og allur almenningur eftir að sjá afgerandi frumkvæði frá stjórnvöldum til lausnar þeim vanda sem við blasir," að því er segir í tilkynningu frá FÍS.