Glergöng yfir í Sundhöllina

Nýtt hús undir læknastarfsemi verður reist á milli Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg og Domus Medica við Egilsgötu. Tengja á nýja húsið þeim sem fyrir eru, og jafnvel Droplaugarstöðum við Snorrabraut, með glergöngum. Hugsanlegt er að allar byggingarnar verði síðan tengdar Sundhöllinni.

Rýmið sem skapast í tengibyggingunum hefur ekki verið skipulagt í þaula, að sögn Þorsteins Steingrímssonar, eiganda Heilsuverndarstöðvarinnar. „Fyrst og fremst var gert ráð fyrir göngum sem hægt væri að flytja sjúklinga eftir, í rúmum og hjólastólum, þegar þeir sækja þjónustu hjá sérfræðingum. En auðvitað gætu verið þarna bjartar setustofur fyrir sjúklinga og jafnvel verslanir. Möguleikarnir eru margir,“ segir Þorsteinn.

Hann bendir á að í Heilsuverndarstöðinni sjálfri séu stórir gangar og hol. „Þar væri hægt að hafa alls konar listsýningar þótt um sjúkrahús sé að ræða. Gangarnir í tengibyggingunum gætu einnig nýst vel til sýningarhalds.“

Í hnotskurn
Í Domus Medica sinna 90 sérfræðingar lækningum á ýmsum sviðum. Í Heilsuverndarstöðinni er heilbrigðisþjónusta og þjónusta á sviði vinnuverndar. Droplaugarstaðir eru hjúkrunarheimili.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert