Sú skyndilega hækkun vísitölu neysluverðs sem varð í apríl kemur sér mjög illa fyrir þá sem tekið hafa verðtryggt lán. Vísitalan hækkaði um 3,4% á milli mánaða og hefur ekki hækkað meira í tæpa tvo áratugi.
Svo tekið sé einalt dæmi þýðir 3,4% hækkun vísitölu neysluverðs að sá sem þarf að greiða 100.000 krónur af jafngreiðsluláni í maí, þarf að greiða 103.400 krónur af því í júní þegar hækkun vísitölu í apríl er farin að taka gildi til verðtryggingar. Að sama skapi hækkar höfuðstóll 20 milljóna króna láns í rúmar 20.682.000 krónur.
Ef verðbólga hefði haldist 3,7%, eins og hún var í ágúst 2004, hefði afborgunin 1. júní nk. verið tæpar 98 þúsund krónur. Hin raunverulega afborgun er 12% hærri, og til þess að greiðslubyrðin hafi ekki þyngst, þurfa laun viðkomandi því að hafa hækkað um það sem því nemur á umræddu tímabili.
„Ég sé ekki fyrir mér að aðrar þjóðir myndu sætta sig við svona miklar sviptingar. T.d. ímynda ég mér að allt yrði vitlaust í Danmörku ef fólk sæi lánin sín hækka svona mikið á einu bretti.“
Hún bendir á að verðtryggingin hækki höfuðstól láns töluvert jafnvel þegar verðbólga er ekki nema 2,5%, sem er verðbólgumarkmið Seðlabankans. Því sé mikilvægt að lántakendur leggist vel yfir útreikninga á lánum og stökkvi ekki á allt sem bjóðist.
Frjálslyndi flokkurinn hefur sem dæmi lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að verðtryggingin verði afnumin, en tillagan er til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd. Í neikvæðri umsögn um tillöguna benti Seðlabanki Íslands á að það að afnema verðtryggingu verði að öllum líkindum til þess að auka verðbólgu enn frekar.
„Ég veit nú ekki hvort það myndi skipta miklu máli í því umhverfi sem við erum í núna,“ segir Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, um aðvaranir Seðlabankans. „Á sama tíma og þeir sem lána peninga verða að hafa tryggingu, má kerfið ekki vera þannig að öll heimsins óáran bitni á þeim sem taka lán.“
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, tekur undir með Valgerði. „Það er erfitt að sjá fyrir sér að það sé hægt að halda gangandi lánakerfi hér á landi ef verðtryggingin verður afnumin.“
Ef það yrði gert þyrfti að veita lánveitendum áhættuálag, til að þeir sæju sér hag í að veita lán í þeirri miklu verðbólgu og óvissu um verðbólgu sem ríkt hefur hér á landi.
Þekkir þú dæmi?