Koma hunangsflugunnar bendir til þess að vorið sé komið og fagna því eflaust margir að sumar sé á næsta leyti. Húshumlan er farin að láta sjá sig og á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands kemur fram að þann 18. apríl hafi stofnuninni borist tilkynningar um húshumlur á kreiki á höfuðborgarsvæðinu, undir Eyjafjöllum, og á Hornafirði.
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir húshumluna nákvæma og stundvísa þar sem hún sé vön að koma eftir dagatali. Undanfarin ár hefur hún vaknað af vetrardvala og birst 19.apríl, en í ár vildi svo skemmtilega til að hún kom deginum áður, eða þann 18. apríl, með tilliti til þess að nú er hlaupár.
Að sögn Erlings eru geitungar ekki eins nákvæmir og húshumlan, og breytilegra hvenær þeir koma. „Þeir koma í fyrsta lagi 10. maí, 15.-20. maí er algengur tími, en það fer eftir hvernig hitastigið er í maí mánuði," segir Erling.
Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að þrjár tegundir hunangsflugna finnist hér á landi af ættkvíslinni Bombus, sem nefnast humlur. Þar segir að móhumla (Bombus jonellus) hafi verið hér á landi um langa hríð, og að garðhumla (Bombus hortorum) og húshumla (Bombus lucorum) hafi borist hingað á seinni hluta nýliðinnar aldar.