Aðstandendur netkosningar um Gjábakkaveg og aðra valkosti í samgönguúrbótum við Þingvallavatn hvetja landsmenn til að taka þátt í kosningunni og minna á að samkvæmt lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum á þjóðgarðurinn að vera helgistaður allra Íslendinga. Á forsíðu mbl.is er að finna tengil á kosningavefinn.
Kosið er um fimm leiðir: Leið 1 er lagfærður núverandi vegur, leið 2 er vegur norðan Lyngdalsheiðar og vestur að Miðfelli, leið 3 er vegur norðan Lyngdalsheiðar og sunnan Þingvallavatns, leið 4 er vegur sunnan Lyngdalsheiðar og upp á Hellisheiði og leið 5 er vegur sunnan Lyngdalsheiðar og niður Grafninginn.
Kosningaraðferðin sem notuð er heitir raðval. Kjósendur geta raðað mögulegum leiðum í sæti með eftirfarandi hætti: 1. sæti fyrir þann kost sem þeir telja bestan, 2. sæti fyrir þann næsta og svo koll af kolli. Ekki þarf þó að velja nema einn kost. Þessi sama aðferð var notuð þegar kosið var um þjóðarblómið og varð þá Holtasóley fyrir valinu. Slóðin á kosningavefinn er www.landvernd.is/gjabakki og þar má nálgast matsskýrslu fyrir vegagerðinni, úrskurð Skipulagsstofnunar og úrskurð umhverfisráðherra auk frétta um Gjábakkaveg og nánari upplýsingar um kosningaraðferðina raðval.
Aðstandendur kosningarinnar eru Landvernd, Lýðræðissetrið, Morgunblaðið og mbl.is.