Leikskólabörn aldrei fleiri

Í desember 2007 sóttu 17.446 börn leikskóla á Íslandi og hafa leikskólabörn aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 230 frá desember 2006 eða um 1,3%. Hlutfall barna sem sækja leikskóla er um 95% í þriggja ára og fjögurra ára aldurshópunum. Í desember 2007 sóttu 90,9% tveggja ára barna leikskóla og 30,8% eins árs barna.

Börnum sem njóta stuðnings fjölgar um rúm 20% milli ára

Viðvera barna lengist stöðugt

Á vef Hagstofu Íslands kemur fram að þegar skoðaðar eru tölur aftur til ársins 1998 má sjá að viðvera barna í leikskólum er stöðugt að lengjast. Hlutfall þeirra barna sem skráð eru í a.m.k. 8 tíma viðveru á dag fer sífellt hækkandi.

Árið 1998 voru rúmlega 40% (40,3%) barna í leikskólum skráð í a.m.k. 8 tíma viðveru. Fjórum árum síðar er þetta hlutfall komið í 61,7% og árið 2007 eru 77,8% allra barna í leikskólum skráð í a.m.k. 8 tíma daglega viðveru.

Hærra hlutfall drengja en stúlkna er skráð í lengri viðveru. Í desember 2007 eru 78,3% allra drengja í leikskólum í a.m.k. 8 tíma vistun á meðan samsvarandi hlutfall stúlkna er 77,1%. Fyrir þremur árum síðan voru 70,1% allra drengja í þetta langri vistun á meðan hlutfall stúlkna var 68,4%. Það skal þó tekið fram að þetta er sú vistun sem foreldrar hafa tryggt sér en ekki er óalgengt að foreldrar sæki börn sín áður en dvalartími þeirra er útrunninn, samkvæmt vef Hagstofu Íslands.

Áframhaldandi fjölgun barna með erlent móðurmál

Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar áfram og eru nú 1.571 talsins, eða 9,0% allra leikskólabarna. Algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna er pólska (324 börn) og í öðru sæti er enska (164 börn). Í desember 2007 eru 367 leikskólabörn skráð með erlent ríkisfang. Flestir erlendir ríkisborgar eru frá Austur-Evrópu eða 59,1% erlendra leikskólabarna. Börn með asískt ríkisfang eru 10,6% erlendra leikskólabarna.

Rúmlega 26% fjölgun barna á einkareknum leikskólum frá 2005
Starfandi leikskólar voru 270 talsins í desember 2007 og hefur fjölgað um þrjá frá desember 2006. Milli áranna 2006 og 2007 fjölgaði einkareknum leikskólum um fimm en leikskólum reknum af sveitarfélögum fækkaði um tvo. Alls sóttu 2.316 börn nám í 36 einkareknum leikskólum í desember 2007 og hefur þeim fjölgað um 485 börn frá árinu áður, eða um 26,5%. Í desember 2007 sóttu 13,3% leikskólabarna einkarekna leikskóla en árið 1998 var hlutfallið 5,3%.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert