Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við skurð- og svæfingahjúkrunarfræðinga á Landsiptala (LSH).
Í yfirlýsingunni lýsa þeir furðu á þeirri vanþekkingu sem það sýni að yfirmenn telja það raunhæfan möguleika að senda hóp hjúkrunarfræðinga til „skyndiþjálfunar” í umræddum störfum.
Stuðningsyfirlýsingin fer í heild sinni hér á eftir:
„Við viljum koma á framfæri stuðningi við starfsfélaga okkar á LSH við erfiðar aðstæður. Við undrumst vanþekkingu stjórnenda LSH og yfirvalda á þeim sérhæfðu störfum sem þessar stéttir sinna . Það kemur berlega í ljós þegar yfirmenn telja það raunhæfan möguleika að senda hóp hjúkrunarfræðinga til útlanda til “ skyndiþjálfunar” í umræddum störfum.
Skurð- og svæfingahjúkrun er 1½ árs sérfræðinám til viðbótar við 4 ára háskólanám í hjúkrunarfræðum. Auk þess hafa margir þeirra hjúkrunarfræðinga sem nú hafa sagt upp störfum, áratuga starfsreynslu og þekkingu á sínu sviði. Finnst okkur mannauðnum kastað á glæ og skammsýni yfirvalda skelfileg.
Aðferð við boðaðar breytingar brýtur í bága við viðurkenndar aðferðir í breytingastjórnun. Þar er m.a. lögð áhersla á góðan undirbúning og samvinnu við þá er breytinguna varðar.
Öryggi sjúklinga er nú ógnað og hættuástand hefur skapast og vísum við allri ábyrgð á hendur stjórnenda LSH og heilbrigðisráðherra."