Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirrituðu í dag samkomulag um samstarf ið móttöku flóttafólks og fjármögnun flóttamannaverkefna á þessu og næsta ári. Greiðir utanríkisráðuneytið kostnað við móttöku flóttafólks næstu tvö árin, allt að 80,25 milljónir króna í ár og 100 milljónir króna árið 2009.
Kostnaður felst í þjónustu við flóttafólkið á fyrstu tólf mánuðum dvalar
þess á Ísland, svo og ferðakostnaði þriggja til fjögurra manna sendinefndar sem fer hverju sinni til þess lands sem hefur veitt flóttafólki hæli og tekur viðtöl við einstaklinga og fjölskyldur sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leggur til að komi til Íslands.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið sér um framkvæmd verkefnisins og gerir samninga við það sveitarfélag sem hverju sinni tekur að sér þjónustu og aðstoð við flóttafólkið fyrsta dvalarárið. Ráðuneytið sér einnig um að gera samning við Rauða kross Íslands sem hefur umsjón með samskiptum við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, stuðningsfjölskyldur ofl.
Samstarf ráðuneytanna fer fram á vettvangi flóttamannanefndar sem hefur meðal annars það verkefni að leggja til við utanríkisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra hvaða hópum flóttafólks verði tekið á móti.