Umræða um sameiningu í íslenska bankakerfinu hefur verið allnokkur að undanförnu, ekki síst eftir að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa skall með öllum sínum þunga á íslensku viðskiptabankana, með þeim afleiðingum að verulega hefur hægt á öllum umsvifum viðskipta- og atvinnulífs hér á landi. Peningar eru drifkraftur atvinnulífsins, eldsneyti þess, rétt eins og bensínið eða dísilolían knýr bílana okkar áfram.
Þorsteinn Már Baldvinsson, nýr bankaráðsformaður Glitnis, sagði í viðtali hér í Morgunblaðinu skömmu eftir að hann varð formaður bankaráðsins að hann sæi fyrir sér einhverja sameiningu í bankakerfinu á þessu ári. Orðrétt sagði Þorsteinn Már m.a.: „Ég hef til dæmis ekki trú á því að í lok þessa árs verði jafnmargar fjármálastofnanir á Íslandi og eru í dag...
Ég trúi því, eins og ég sagði, að Glitnir verði áfram til en sé það fyrir mér að það verði hagstætt að slá Glitni og öðrum fjármálafyrirtækjum, eins og til dæmis einhverjum sparisjóðum, saman.“
En fljótlega í kjölfar aðalfundar Straums sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums, eitthvað á þá leið að það væru erlendir lánardrottnar íslensku bankanna sem réðu því hvort íslenskir bankar gætu sameinast, en ekki hluthafar og stjórnendur bankanna. Þessi ummæli Björgólfs Thors vöktu að vonum nokkra athygli þegar þau voru látin falla en síðan lognaðist umræðan út af eins og gjarnan gerist hér á landi.
Íslenskir viðskiptabankar eru í grófum dráttum með tvær tegundir af lánum hjá erlendum lánardrottnum sínum.
Annars vegar er um lánalínur að ræða, svo nefndar skammtímalánalínur sem miðast við það að bankarnir hafi yfir því fjármagni að ráða, sem til þarf, til þess að reka banka frá degi til dags. Þar á meðal eru heimildir til þess að geta gert framvirka samninga, kaupa og selja gjaldeyri, og svo framvegis.
Það sem stjórnendur íslensku bankanna óttast, þegar sameiningu innan íslenska bankakerfisins ber á góma, er að ein slík skammtímalína hjá einum viðskiptabanka og önnur slík lánalína hjá öðrum viðskiptabanka, yrði ekki tvöföld lánalína að sameiningu lokinni, þ.e. að í þessu tilfelli gildi barnaskólareikningsdæmið einn plús einn er sama og tveir, alls ekki, heldur yrði niðurstaðan sú að einn plús einn yrði einn!
Stjórnendur íslensku bankanna vita að erlendu lánardrottnarnir bíða eins og hrægammar eftir því að íslensku bankarnir misstígi sig, þannig að sá möguleiki opnist að segja upp lánum sem eru á góðum kjörum og bjóða síðan upp á nýja samninga á afarkjörum.
Þeir telja því að þeir geti sig hvergi hrært, hvað varðar sameiningaráform, því við þær aðstæður sem nú ríkja á fjármálamörkuðum væri sú hætta yfirvofandi að allt hagræðið af sameiningu sem menn hefðu í huga að skipta á milli hluthafa og neytenda hér á landi lenti í vösum erlendra lánardrottna bankanna. Því sé betur heima setið en af stað farið, að minnsta kosti nú um stundir og að öllum líkindum næstu misserin, jafnvel árin, ef spár svartsýnustu manna ganga eftir.