Spá 3,2% atvinnuleysi á næsta ári

Vinnumálastofnun spáir fækkun í sjávarútvegi
Vinnumálastofnun spáir fækkun í sjávarútvegi mbl.is

Í ljósi þess hve at­vinnu­leysi helst lágt lengi fram eft­ir ár­inu 2008 sé ólík­legt að at­vinnu­leysi á ár­inu 2008 verði hærra en 1,5%. Til þess þarf það þó að aukast veru­lega síðari helm­ing árs­ins. Þá er gert ráð fyr­ir að at­vinnu­leysi á ár­inu 2009 verði um 3,2% sem er þá ein mesta aukn­ing at­vinnu­leys­is milli ára síðustu 20 árin, sam­kvæmt nýrri skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar.

Fara úr fram­kvæmd­um á íbúðamarkaði í stærri fram­kvæmd­ir

Í skýrsl­unni kem­ur fram að gera megi ráð fyr­ir því að veru­lega hæg­ist um í bygg­inga­starf­semi á ár­inu 2008. Bygg­inga-fram­kvæmd­ir eru þó enn mikl­ar en gera má ráð fyr­ir að úr þeim drægi m.a. vegna minnk­andi eft­ir­spurn­ar eft­ir íbúðar- og at­vinnu­hús­næði og skerts aðgangs að láns­fé.

Á hinn bóg­inn má bú­ast við að um­svif í ann­arri mann­virkja­gerð hald­ist mik­il bæði vegna áætl­ana um op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir s.s. í vega­gerð og við ýms­ar fram­kvæmd­ir á veg­um sveit­ar­fé­laga, en einnig vegna viðhalds­verk­efna sem frestað hef­ur verið. Þannig er gert ráð fyr­ir því að 1.000-1.500 manns muni starfa við vega- og jarðgangna­gerð á ár­inu 2008.

„Því má bú­ast við að mannafl­inn í bygg­ing­ariðnaði mun að ein­hverju leiti fara úr al­menn­um bygg­ing­ar­fram­kvæmd­um á íbúðamarkaði í stærri fram­kvæmd­ir á veg­um op­in­berra aðila og sveit­ar­fé­laga. Auk þess er bygg­ing tón­list­ar­húss mannafls­frek og gert ráð fyr­ir nokk­ur hundruð starfs­manna við þær fram­kvæmd­ir á ár­un­um 2008 og 2009.

Á heild­ina litið má þó gera ráð fyr­ir nokk­urri fækk­un starfs­fólks í bygg­ing­ariðnaði og sam­kvæmt könn­un Capacent Gallup í mars 2008 gerðu ein­ung­is um 12% fyr­ir­tækja í bygg­ing­ariðnaði ráð fyr­ir aukn­ingu starfs­manna næstu 6 mánuði, en yfir 30% gera ráð fyr­ir fækk­un starfs­manna."

Gera má ráð fyr­ir fækk­un mannafla í sjáv­ar­út­vegi á næstu miss­er­um, bæði vegna niður­skurðar í þorskveiðiheim­ild­um en einnig sem fram­hald þeirr­ar þró­un­ar sem verið hef­ur vegna hagræðing­ar og tækni­fram­fara. Starfs­fólki í sjáv­ar­út­vegi hef­ur fækkað stöðugt allt frá ár­inu 1994 en þá störfuðu sam­kvæmt vinnu­markaðskönn­un Hag­stof­unn­ar um 16.000 manns við veiðar og vinnslu. Á ár­inu 2007 var sú tala kom­in í um 7.400 manns, þar af um 4.500 í fisk­vinnslu.

Auk­in eft­ir­spurn í ferðaþjón­ustu

Í ferðaþjón­ustu má bú­ast má við auk­inni eft­ir­spurn eft­ir starfs­fólki í sum­ar í takt við auk­in um­svif yfir sum­ar­mánuðina. Tæp 20% fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu, sam­göng­um og flutn­ing­um gera ráð fyr­ir fjölg­un starfs­fólks næstu mánuði, en inn­an við 10% reikna með að fækka, skv. könn­un Capacent Gallup frá mars sl. Fjöldi starf­andi í hót­el- og veit­inga­húsa­rekstri hef­ur verið á bil­inu 5.300 og 6.400 frá ár­inu 2000. Nokk­ur fækk­un var í grein­inni á ár­un­um 2003 og 2004 en frá ár­inu 2004 hef­ur fjöld­inn farið úr 5.300 í 6.200 árið 2007.

Gera ráð fyr­ir fækk­un í fjár­mála­geir­an­um

Mik­il aukn­ing hef­ur orðið á fjölda starfs­manna í fjár­mála- og trygg­inga­starf­semi síðustu ár. Vöxt­ur­inn nem­ur um 8% að meðaltali und­an­far­in 3 ár en aukn­ing­in á ár­inu 2007 nam um 1.400 manns. Gera má ráð fyr­ir ein­hverri fækk­un í grein­inni á ár­inu en alls störfuðu um níu þúsund manns í fjár­málaþjón­ustu á ár­inu 2007.


Marg­ir út­lend­ing­ar óskráðir

Í skýrsl­unni kem­ur fram að at­hygl­is­vert er að um 7.300 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar fluttu til lands­ins á ár­inu 2007 skv. töl­um Hag­stof­unn­ar, en skv. skrán­ingu Vinnu­mála­stofn­un­ar komu tals­vert fleiri til lands­ins bara frá nýju ríkj­um ESB og lönd­um utan ESB.

„Ljóst má því vera að tals­verður fjöldi út­lend­inga hef­ur verið kom­inn til lands­ins á ár­inu 2007 án þess að vera skráður í þjóðskrá, en að ein­hverju marki kunna þeir sem voru skráðir hjá Vinnu­mála­stofn­un að hafa staldrað mjög stutt við eða jafn­vel ekki komið, og því aldrei fengið dval­ar­leyfi.

Á heild­ina litið má þó gera ráð fyr­ir að frá árs­byrj­un 2007 til árs­loka það ár hafi fjölgað um amk. 4.000 er­lenda rík­is­borg­ara á ís­lensk­um vinnu­markaði og þeir verið orðnir milli 17 og 18 þúsund, eða yfir 9% af vinnu­afl­inu.

Fyrstu þrjá mánuði árs­ins 2008 er fjöldi ný­skrán­inga lítið eitt meiri en fyrstu þrjá mánuði árs­ins 2007 eða um 1.340 í lok mars 2008 en um 1.160 í lok mars 2007. Útgáfa nýrra at­vinnu­leyfa er svipuð og á fyrstu 3 mánuðum síðasta árs eða ná­lægt 130 leyfi. Því virðist enn vera tals­verð eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli, en reikna verður með að um hæg­ist fljót­lega í ljósi minnk­andi um­svifa al­mennt í hag­kerf­inu og minnk­andi einka­neyslu. Þá má skýra hluta af skrán­ing­um þessa árs með auknu eft­ir­liti og um sé að ræða ein­stak­linga sem voru komn­ir til lands­ins í lok síðasta árs," að því er seg­ir í skýrsl­unni.

Skýrsla Vinnu­mála­stofn­un­ar í heild 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert