Í ljósi þess hve atvinnuleysi helst lágt lengi fram eftir árinu 2008 sé ólíklegt að atvinnuleysi á árinu 2008 verði hærra en 1,5%. Til þess þarf það þó að aukast verulega síðari helming ársins. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi á árinu 2009 verði um 3,2% sem er þá ein mesta aukning atvinnuleysis milli ára síðustu 20 árin, samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar.
Fara úr framkvæmdum á íbúðamarkaði í stærri framkvæmdir
Í skýrslunni kemur fram að gera megi ráð fyrir því að verulega hægist um í byggingastarfsemi á árinu 2008. Bygginga-framkvæmdir eru þó enn miklar en gera má ráð fyrir að úr þeim drægi m.a. vegna minnkandi eftirspurnar eftir íbúðar- og atvinnuhúsnæði og skerts aðgangs að lánsfé.
Á hinn bóginn má búast við að umsvif í annarri mannvirkjagerð haldist mikil bæði vegna áætlana um opinberar framkvæmdir s.s. í vegagerð og við ýmsar framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, en einnig vegna viðhaldsverkefna sem frestað hefur verið. Þannig er gert ráð fyrir því að 1.000-1.500 manns muni starfa við vega- og jarðgangnagerð á árinu 2008.
„Því má búast við að mannaflinn í byggingariðnaði mun að einhverju leiti fara úr almennum byggingarframkvæmdum á íbúðamarkaði í stærri framkvæmdir á vegum opinberra aðila og sveitarfélaga. Auk þess er bygging tónlistarhúss mannaflsfrek og gert ráð fyrir nokkur hundruð starfsmanna við þær framkvæmdir á árunum 2008 og 2009.
Á heildina litið má þó gera ráð fyrir nokkurri fækkun starfsfólks í byggingariðnaði og samkvæmt könnun Capacent Gallup í mars 2008 gerðu einungis um 12% fyrirtækja í byggingariðnaði ráð fyrir aukningu starfsmanna næstu 6 mánuði, en yfir 30% gera ráð fyrir fækkun starfsmanna."
Gera má ráð fyrir fækkun mannafla í sjávarútvegi á næstu misserum, bæði vegna niðurskurðar í þorskveiðiheimildum en einnig sem framhald þeirrar þróunar sem verið hefur vegna hagræðingar og tækniframfara. Starfsfólki í sjávarútvegi hefur fækkað stöðugt allt frá árinu 1994 en þá störfuðu samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um 16.000 manns við veiðar og vinnslu. Á árinu 2007 var sú tala komin í um 7.400 manns, þar af um 4.500 í fiskvinnslu.
Aukin eftirspurn í ferðaþjónustu
Í ferðaþjónustu má búast má við aukinni eftirspurn eftir starfsfólki í sumar í takt við aukin umsvif yfir sumarmánuðina. Tæp 20% fyrirtækja í ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum gera ráð fyrir fjölgun starfsfólks næstu mánuði, en innan við 10% reikna með að fækka, skv. könnun Capacent Gallup frá mars sl. Fjöldi starfandi í hótel- og veitingahúsarekstri hefur verið á bilinu 5.300 og 6.400 frá árinu 2000. Nokkur fækkun var í greininni á árunum 2003 og 2004 en frá árinu 2004 hefur fjöldinn farið úr 5.300 í 6.200 árið 2007.
Gera ráð fyrir fækkun í fjármálageiranum
Mikil aukning hefur orðið á fjölda starfsmanna í fjármála- og tryggingastarfsemi síðustu ár. Vöxturinn nemur um 8% að meðaltali undanfarin 3 ár en aukningin á árinu 2007 nam um 1.400 manns. Gera má ráð fyrir einhverri fækkun í greininni á árinu en alls störfuðu um níu þúsund manns í fjármálaþjónustu á árinu 2007.
Margir útlendingar óskráðir
Í skýrslunni kemur fram að athyglisvert er að um 7.300 erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins á árinu 2007 skv. tölum Hagstofunnar, en skv. skráningu Vinnumálastofnunar komu talsvert fleiri til landsins bara frá nýju ríkjum ESB og löndum utan ESB.
„Ljóst má því vera að talsverður fjöldi útlendinga hefur verið kominn til landsins á árinu 2007 án þess að vera skráður í þjóðskrá, en að einhverju marki kunna þeir sem voru skráðir hjá Vinnumálastofnun að hafa staldrað mjög stutt við eða jafnvel ekki komið, og því aldrei fengið dvalarleyfi.
Á heildina litið má þó gera ráð fyrir að frá ársbyrjun 2007 til ársloka það ár hafi fjölgað um amk. 4.000 erlenda ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði og þeir verið orðnir milli 17 og 18 þúsund, eða yfir 9% af vinnuaflinu.
Fyrstu þrjá mánuði ársins 2008 er fjöldi nýskráninga lítið eitt meiri en fyrstu þrjá mánuði ársins 2007 eða um 1.340 í lok mars 2008 en um 1.160 í lok mars 2007. Útgáfa nýrra atvinnuleyfa er svipuð og á fyrstu 3 mánuðum síðasta árs eða nálægt 130 leyfi. Því virðist enn vera talsverð eftirspurn eftir vinnuafli, en reikna verður með að um hægist fljótlega í ljósi minnkandi umsvifa almennt í hagkerfinu og minnkandi einkaneyslu. Þá má skýra hluta af skráningum þessa árs með auknu eftirliti og um sé að ræða einstaklinga sem voru komnir til landsins í lok síðasta árs," að því er segir í skýrslunni.