Kennari neitar að dreifa trúarbæklingi

Esther Ösp Gunnarsdóttir.
Esther Ösp Gunnarsdóttir.

„Ætlast var til þess að ég myndi dreifa þessum bæklingi til krakkanna í bekknum mínum. Það harðneita ég að gera,“ segir kennarinn Esther Ösp Gunnarsdóttir á bloggi sínu en hún hefur neitað að dreifa kynningarbæklingi fyrir kristilegar sumarbúðir til nemenda sinna.

Esther, sem kennir 7. bekk við Grunnskólann á Egilsstöðum, sagði í samtali við 24 Stundir að sér þætti það vafasamt á tímum trúfrelsis að skólinn stæði í svona kynningarstarfsemi. „Mér finnst þetta bara svolítið hæpið í ljósi þess að hér á að ríkja trúfrelsi og sífellt að verða lögð meiri áhersla á umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum og fólki af hvaða uppruna sem er. Sem er bara af hinu góða. En þá stangast þetta á við það þegar skólinn er farinn að taka að sér að dreifa kynningarbæklingum um trúarlegt starf.“

Esther segir að stjórnendur grunnskólans hafi sýnt ákvörðun hennar fullan skilning en hún setur spurningarmerki við það hvort ákvörðun hennar teljist vera fréttaefni, en nú þegar hefur héraðsfréttablaðið Austurglugginn gert ákvörðun hennar góð skil. „Ég veit ekki alveg hvort þetta er fréttnæmt. Ég hugsa að það hafi fleiri kennarar en ég gert þetta í gegnum tíðina.“

Esther bætir við að sér finnist algjör óþarfi að kennarar sinni einnig starfi bréfbera. „Kennarar hafa nóg að gera þó þeir fari ekki að taka að sér hlutverk póstburðarfólks líka, bara til þess að spara kirkjunni örfáar krónur.“ vij

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert