Ögmundur Jónasson, formaður BSRB sagði í 1. maí ræðu sinni í Vestmannaeyjum dag að samfélagið þurfi að ná sáttum og því hafi BSRB lagt til skammtíma samninga við ríkið í ljósi þeirrar stöðu sem nú sé í efnahagslífinu og einkennist af óðaverðbólgu og himinháum vöxtum.
Sagði hann komið að þeim sem stýra verðlaginu að sýna ábyrgð. Það hafa þeir upp til hópa ekki gert á undanförnum árum, og bendir hann m.a. á lækkun virðisaukaskattsins á matvælum á síðasta ári í því sambandi.
Fréttatilkynning BSRB fer í heild sinni hér á eftir:
Ögmundur Jónasson formaður BSRB 1. maí:
Kveðum niður verðbólguna, breyttar áherslur við landstjórnina og efasemdir um nýumsaminn Endurhæfingarsjóð.
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB sagði í 1. maí ræðu í Vestmannaeyjum dag að BSRB hefði lagt til skammtíma samninga við ríkið í ljósi þeirrar stöðu sem nú væri í efnahagslífinu, sem einkennist af óðaverðbólgu og himinháum vöxtum:
„Samfélagið þarf að ná áttum – leggja til atlögu gegn þeim vágestum sem ógna okkur. Það þolir ekkert heimili eða veikburða atvinnurekstur okurvextina til frambúðar eða þá holskeflu verðhækkana á vöru og þjónustu sem nú ríður yfir. Það er komið að þeim sem stýra verðlaginu að sýna ábyrgð. Það hafa þeir upp til hópa ekki gert á undanförnum árum, eða hvað varð um ávinninginn af lækkun virðisaukaskattsins á matvælum í fyrra? Var hann ekki háfaður af verslunareigendum á sama hátt og gengisbreytingar hafa verið nýttar í þeirra þágu en ekki komið neytendum til góða. Á þessum málum verður nú að taka af festu og ábyrgð því eitt mega menn vita að okkar tilboð er ekki án skilyrða. Við viljum breyttar áherslur – ekki síst hjá stjórnvöldum, markaðs- og peningahyggja verði látin víkja – að við komum að nýju að borði sem samfélag – lögð verði á hilluna áform um frekari einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar og hætt verði að úthýsa láglaunahópum og koma fram við fólk eins og ómerkilegar stærðir í bókhaldi sjúkrahúsanna. Víðar í þurfa stjórnendur að taka sér tak og temja sér önnur vinnubrögð. Deilur um löggæsluna á Suðurnesjum eru dæmi þar um. Þá þurfum við að heyra hvenær stjórnvöld ætli að framfylgja fyrirheitum um að bæta kjör umönnunarstétta og annarra hópa sem búa við óviðunandi kjör og aðstæður?"
Þá vék formaður BSRB að nýjum Endurhæfingasjóði sem nýlega hafi verið samið um í samningum á almennum markaði. Þar væri ýmsum spurnigum ósvarð: „Fyrirhugaður Endurhæfingarsjóður byggir vissulega á félagslegum forsendum og markmiðin eru góð – að efla þá sem misst hafa starfsorku til sjálfshjálpar að nýju. En einmitt það er markmiðið með almannatryggingum og það er markmiðið með því endurhæfingarnetverki sem við höfum verið að koma á laggirnar á undanförnum árum og áratugum – fyrir alla. Þetta kerfi hefur hins vegar verið svívirðilega fjársvelt. Það þekkir starfsfólkkið á Grensásdeild Landspítalans og í heilbrigðiskerfinu. En þá ætti verkefnið að vera að auka fjárstreymið til þessara aðila, og hafna þeirri stefnu að því aðeins verði peningar af hendi látnir rakna ef starfsemin er einkavædd. Ætlar ríkisstjórnin Almanntryggingum rýrari hlut þegar farið verður að beina fjármagni inn í þennan nýja farveg Endurhæfingarsjóðs? Við þessu þurfa að fást svör.
Ögmundur sagðist hafa ákveðnar efasemdir um Endurhæfingarsjóðinn að með honum sé verið að "snúa til þess sem áður var, að réttindi sem nú tilheyra öllum verði að nýju vinnumarkaðstengd. Grundvallarbreytingar á velferðarkerfinu á ekki að gera umræðulítið eins og nú hefur gerst og hefur stundum gerst áður. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar umræðulítið er samið um grundvallarbreytingar sem munu ganga yfir allt samfélagið."