Tímamót fyrir Flateyinga

Það var mikið um að vera í Flatey í Breiðafirði sl. þriðjudag þegar stærðarinnar flutningabíll flutti um 45.000 lítra vatnstank í eyjuna sem er nú staðsettur nálægt höfninni. Óhætt er að segja að koma vatnstanksins til eyjunnar marki tímamót fyrir eyjarskeggja sem hafa oft þurft að búa við vatnsskort yfir heitasta tímann.

Breiðafjarðarferjan Baldur sigldi með tankinn út í eyju og flutningabíllinn sá síðan um að aka honum á réttan stað.

Aðgerðin, sem vatnsveita Flateyjar stóð að, heppnaðist afar vel að sögn Heimis Sigurðssonar, stjórnarformanns vatnsveitunnar. Vatnsveitan er hluti Framfarafélags Flateyjar, sem eru samtök húseigenda í Flatey.

Að sögn Heimis er hugsunin sú að Baldur flytji vatn í tankinn yfir sumarið, en í ferjunni eru nú stórir vatnstankar og dælur og því auðvelt að dæla vatni úr tönkum ferjunnar og í land.

Heimir segir þetta vera mikla framför því nú séu menn ekki lengur bundnir af því hvort það rigni eður ei auk þess sem gæðin á vatninu verði mun meiri en verið hefur. Þá verða flest hús í eyjunni tengd vatnsveitunni eftir breytingarnar að sögn Heimis.

Hingað til, eða frá því vatnsveitan var sett á laggirnar fyrir um fimm árum, hafa eyjarskeggjar safnað vatni í brunna og hefur vatninu verið dælt í tanka í þorpinu, en þaðan hefur vatninu síðan verið dælt í húsin. Það var mikil breyting frá sem var enda hafa Flateyingar oft þurft að búa við vatnsskort yfir heitasta tímann sem fyrr segir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert