Allir lögreglumenn fái rafstuðbyssu

Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu.
Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu. AP

29. þing Landsambands lögreglumanna sem haldið var í Munaðarnesi um helgina krefst þess að öllum lögreglumönnum verði útvegað Taser-valdbeitingartæki sem allra fyrst. Um er að ræða rafstuðbyssur.

Í greinargerð með ályktun þingsins kemur fram að ólíðandi er að slysatíðni lögreglumanna á Íslandi sé meiri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Taser-valdbeitingartækið sé sennilega mest rannsakaða valdbeitingartækið sem notað er af lögreglu í dag og því er ekki þörf á því, að mati þingsins, að tefja málið með frekari skoðunum. Á meðan á þessu ferli standi slasist lögreglumenn við skyldustörf sín nær daglega.

Þingið ályktaði einnig að nú þegar yrði farið í það að endurskoða fjárveitingar til lögregluembætta í samræmi við sanna fjárþörf embættanna.

Lögreglumenn séu sammála um að fjárveitingar sem ætlaðar eru lögregluembættunum séu í engu samræmi við þær skyldur sem á þau eru lagðar.

Minni fjárheimildir en raunverulega þarf til reksturs lögreglu til að halda uppi viðunandi þjónustu- og öryggisstigi gagnvart þegnum landsins ógna öryggi borgaranna og skapa falskt öryggi. Þá styður þingið baráttu lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir leiðréttingu á fjárveitingu til þessa annars stærsta lögregluembættis landsins.

Þá er gerð krafa um að grunnlaun lögreglumanna verði hækkuð verulega og greitt verði sérstakt álag fyrir aukavinnu um helgar, nætur og sérstaka frídaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert