Hjúkrunarfræðingar eru hvattir til „að virða hvíldartímaákvæði vinnutímatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, 2003/88/EB og taka ekki yfirvinnu eða aukavaktir sem brjóti í bága við hana, en njóta þess í stað frítímans í faðmi fjölskyldu sinnar,“ samkvæmt yfirlýsingu frá fundi trúnaðarmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) frá í gær.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður FÍH, minnti á að mikið hefði verið rætt undanfarið um hvíldartímaákvæðið og að það væri virt.
„Við erum að fara í kjaraviðræður með áherslu á hækkun grunnlauna. Að meðaltali kemur þriðjungur af heildarlaunum hjúkrunarfræðinga í formi vaktaálags vegna óhefðbundins vinnutíma og yfirvinnu,“ sagði Elsa. Hún kvaðst telja að allt of stór hluti launa nú fengist fyrir annað en hefðbundna dagvinnu. Því væri lögð áhersla á að hækka grunnlaunin.
„Þetta er að stærstum hluta kvennastétt og þar sem heimilisábyrgðin er enn aðallega á herðum kvenna telja hjúkrunarfræðingar að þrískipt vaktavinna með 80% starfshlutfalli eigi að teljast full vinna,“ sagði Elsa. Meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga í ríkisstofnunum er nú 77%. Elsa sagði meðalstarfshlutfallið undirstrika að 80% væri full vinna og fólk fyndi það vel á eigin líkama.
Björn Zoëga, annar tveggja starfandi forstjóra Landspítalans, telur að það verði mjög misjafnt eftir deildum spítalans hver áhrifin verða ef hjúkrunarfræðingar hætta að vinna yfirvinnu eða taka aukavaktir sem brjóta í bága við vinnutilskipunina. Hann benti á að samkvæmt kjarasamningi yrðu að vera minnst átta stundir milli vakta hjúkrunarfræðinga og kveðið á um hvernig bæta ætti fyrir svo skamma hvíld. Hins vegar væru lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og Landspítalinn vildi ekki brjóta lög. Þess hefðu þó verið dæmi vegna of lítillar mönnunar á nokkrum deildum.