Sívaxandi áhuga gætir hjá fólki á að spreyta sig á Hvannadalshnúki, hæsta tindi landsins. Upp er runninn sá árstími sem vinsælast er að ganga á tindinn og segja starfsmenn ferðafélaga, sem Morgunblaðið ræddi við, hnúkinn aldrei hafa verið jafnvinsælan og nú.
Ferðafélag Íslands hefur skipulagt ferð upp á Hvannadalshnúk um hvítasunnuhelgina, 10.-12. maí. Að sögn Haralds Arnar Ólafssonar leiðsögumanns eru rúmlega 100 manns skráðir í þá ferð og eru 60 á biðlista. Haraldur hefur leitt ferðir upp á hnúkinn síðan árið 2005 og að hans mati hefur sprenging orðið í áhuga fólks. Spurður hvernig standi á því segir hann um að ræða samspil margra þátta en gangan sé draumur sem blundi í mörgum. „Fólk sér að þetta er ekki bara fyrir allra hörðustu fjallagarpana heldur eitthvað sem allir geta gert ef þeir undirbúa sig nógu vel.“
Hvítasunnuhelgin hefur löngum verið vinsæll tími til að halda á Hvannadalshnúk en Skúli H. Skúlason hjá ferðafélaginu Útivist segir félagið ekki hafa skipulagt ferð upp á hnúkinn þá þar sem það kjósi að fara heldur þegar umferðin er minni. Útivist stendur fyrir einni ferð á hnúkinn á ári og segir Skúli að farið verði í hana fljótlega. Félagið kýs þó að hafa hana heldur fámenna og er búist við að hópurinn verði aðeins um 20 manns.
Íslenskir fjallaleiðsögumenn fóru síðustu helgi í fyrstu ferð vorsins upp á hnúkinn. Að sögn Elínar Sigurveigar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra félagsins, hefur hvítasunnuhelgin notið svo mikilla vinsælda undanfarin ár að nú er svo komið að hún er sú helgi þar sem flestir skrá sig í ferðir upp á aðra tinda með félaginu því margir vilja forðast umferðina upp á hnúkinn.