Sérsveitin kölluð í Gnúpverjahrepp

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út í gær vegna ölvaðs manns sem talinn var vopnaður í námunda við bæinn Austurhlíð í Gnúpverjahreppi. Lögreglunni á Selfossi barst upphaflega tilkynning um kl. 7 í gærmorgun um sinubruna á landareigninni og jafnframt var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir.

Lögreglan fór á vettvang og byrjaði rannsókn á grundvelli vísbendinga sem leiddu hana að heimili mannsins þar sem hann var handtekinn grunaður um ölvunarakstur og íkveikju. Þar sem grunur var einnig um að hann hefði verið vopnaður skotvopni þótti rétt að biðja um aðstoð sérsveitar en þegar hún kom á vettvang hafði maðurinn verið handtekinn óvopnaður. Leit að vopni var hins vegar gerð eftir handtökuna.

Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu tókust á við sinueldana á landareigninni og stóð slökkvistarf yfir fram yfir hádegið og var um tíma óttast að eldurinn bærist í húsbyggingar. Ekki varð þó tjón á byggingum en eldurinn var töluverður að sögn lögreglunnar.

Málið er í fullri rannsókn og væntir lögreglan þess að málið muni upplýsast í dag.

Hinn grunaði hafði hins vegar ekki gengist við verknaðinum í gær við yfirheyrslur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert