Stálu úr stöðumælum

Rannsóknarlögreglumenn handtóku tvo erlenda menn á tvítugsaldri aðfaranótt fimmtudags eftir að þeir voru staðnir að verki við að stela úr stöðu- og miðamælum í höfuðborginni. Mennirnir eru einnig grunaðir um að hafa framið slík brot í öðrum löndum.

Lögreglan hafði fylgst með mönnunum um nokkurt skeið eftir að hafa fengið upplýsingar um veru þeirra á landinu frá lögreglu –og tollayfirvöldum. Sást til þeirra þar sem þeir gengu á milli verslana í miðborginni og skiptu mynt í seðla. Upphæðin nam tugum þúsunda.

Seinna um kvöldið létu mennirnir til skarar skríða og stálu peningum úr miðamælum í vesturborginni. Þegar lögreglan brást við tók annar mannanna til fótanna en náðist og var handtekinn, líkt og félagi hans.

Lögreglan segir, að í vistarverum þeirra hafi einnig fundist mynt. Lögreglan hefur lagt hald á annað hundrað þúsunda króna vegna málsins. Mennirnir hafa nú verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald á meðan rannsókn málsins heldur áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert