Björn Þorfinnsson var kjörinn nýr forseti Skáksambands Íslands á aðalfundi sambandsins sem fram fór í dag. Tveir voru í framboði, Óttar Felix Hauksson og Björn, en Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Björn hefur setið í stjórn Skáksambandsins undanfarin ár sem gjaldkeri og almennur stjórnarmaður, og hefur m.a.komið mikið að skipulagningu alþjóðlegra skákviðburða hérlendis. Hann hefur auk þess getið sér gott orð sem sterkur skákmeistari á uppleið, en nýlega varð hann m.a. Atskákmeistari Íslands og naði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu í ár. Ný stjórn Skáksambandsins var auk þess kosin sem í sitja 7 aðalmenn og 4 varamenn.