Drukknir fjallamenn veltu jeppa á hús Ferðafélagsins

mbl.is

„Þetta gerðist fyrir tveimur helgum og við vorum lengi að bíða eftir því að umræddir menn kæmu til okkar og gerðu grein fyrir málinu við okkur en þeir hafa ekki gert það. Við höfum kannað þetta sjálfir með vitnum,“ segir Páll Guðmundsson, formaður Ferðafélags Íslands, um jeppamenn sem veltu jeppa á skála félagsins í Landmannalaugum.

Páll segir mennina hafa valdið miklum skemmdum á húsinu.

„Mennirnir veltu jeppanum ofan í snjóskál sem er ofan við húsið og eyðilögðu bílinn og stórskemmdu húsið. Þeir voru mjög snöggir að hafa sig á brott og létu draga bílinn í burtu, sem var sagður ónýtur.

Við ætlum að sækja bætur vegna þeirra skemmda sem urðu á húsinu. Það brotnaði bæði veggur og gafl og samanlagt gæti þetta sjálfsagt verið tjón upp á milljónir króna.“ Páll segir Ferðafélagið líta málið mjög alvarlegum augum.

„Það sem við erum að kæra til lögreglu er að þarna voru á ferð ölvaðir menn við akstur. Það sem er jafnvel enn alvarlegra er að grunur leikur á að þarna hafi verið á ferð starfsmenn ferðaþjónustu með farþega, sem höfðu síðan komið þeim inn í skála. Þetta hefði klárlega getað valdið þeim sem voru að keyra og öðrum tjóni. Það er mesta mildi að þarna urðu ekki slys á fólki.“

Páll segir ölvun ökumanna á fjöllum hafa verið vandamál fyrir sex til átta árum en síðan hafi ástandið „snarlagast“ og „verið til fyrirmyndar hjá jeppamönnum“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert