Beint flug Icelandair til Toronto í Kanada hófst í gær. Þegar vél Icelandair renndi að flugstöð borgarinnar fögnuðu heimamenn komu hennar með því að sprauta yfir hana vatnsbogum úr slökkviliðsbílum vallarins meðan hún ók að sínum rana.
Í þessu fyrsta flugi voru auk almennra farþega, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ásamt fylgdarliði, Einar Benediktsson sendiherra og Björgólfur Jóhannsson stjórnarformaður Icelandair Group. Í móttöku sem borgar- og ferðamálayfirvöld Toronto héldu í tilefni hins beina flugs komu m.a. Einar K. Guðfinnsson ráðherra og Markús Örn Antonsson sendiherra.
Ávörp voru flutt og hinum íslensku gestum fagnað innilega.
Icelandair er eina flugfélagið auk kanadískra og bandarískra flugfélaga sem fengið hefur óskilyrt leyfi til flugs til og frá Kanada, fyrir utan skilyrði um að fljúga jafnframt til Halifax. Öðrum flugfélögum eru sett ýmis skilyrði sem varða val áfangastaða, tíðni flugs og fargjaldaverð. Þykir þetta mikill áfangi fyrir Icelandair og hefur tekið mjög langan tíma að koma því í framkvæmd.
Björgólfur Jóhannsson sagðist í samtali við Morgunblaðið í Toronto vera afar ánægður með að Torontoflugið væri hafið og að það skipti miklu máli fyrir Icelandair að hafa náð þeim áfanga.
Þrjú flug verða vikulega fram í lok maí, en þá verða þau fimm á viku út sumarið.
Björgólfur segist vonast til að Íslendingar taki fluginu opnum örmum. Svo virðist raunar vera því bókanir í maí eru í samræmi við væntingar félagsins, eða rétt yfir fimm þúsund manns. Þá telur hann umtalsverð tækifæri liggja í flugi milli Evrópu og Kanada um Ísland.