Holtsgöng, sem áttu að liggja undir Skólavörðuholtið og tengja saman Hringbraut og Sæbraut verða felld út af aðalskipulagi Reykjavíkur. Jóhannes Kjarval hjá skipulagsráði segir ástæðuna mega rekja til endurskoðunar á fyrirkomulagi á lóð Landspítalans. Göngin hafi, að mati manna, hreinlega verið fyrir og komið í veg fyrir að hægt væri að ná fram heildstæðri niðurstöðu.
Spurður hvort hár kostnaður hafi haft áhrif á brotthvarf ganganna af teikniborðinu segir Jóhannes svo ekki hafa verið. „Þetta var ekki komið nálægt því stigi að menn væru farnir að velta kostnaði fyrir sér,“ segir hann í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Sjálfur segist Jóhannes ekki hafa haft mikla trú á því að göngin yrðu að veruleika. „Það hefði svo sem verið ágætt að geta keyrt þarna inn í göngin og skilið bílinn eftir í helli þarna undir og farið svo í lyftu upp á Laugaveg eins og einn verkfræðingur talaði um,“ segir Jóhannes og telur að þetta hefði vissulega getað leyst bílastæðavandann við Laugaveg en það væri dýru verði keypt. „Mér finnst það umhugsunarefni að fara þarna ca 1 km inn í bergið bara til að spara einhverjar mínútur.“