Spáir miklum innflutningi á kjúklingabringum frá ESB

Búist er við miklum innflutningi á kjúklingabringum ef matvælalöggjöf ESB …
Búist er við miklum innflutningi á kjúklingabringum ef matvælalöggjöf ESB verður innleidd hér. AP

Tollur á ferskum kjúklingabringum sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu er mun lægri en tollur af öðrum tegundum kjúklings. Helga Lára Hólm, framkvæmdastjóri Ísfugls, segist sannfærð um að innfluttar kjúklingabringur muni flæða yfir markaðinn ef frumvarp um innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins verður samþykkt á Alþingi. Það muni hafa mikil áhrif á stöðu kjúklingaframleiðenda hér á landi.

Mun lægri tollur á bringum

Samkvæmt yfir 15 ára gömlum samningi milli Íslands og Evrópusambandsins er 540 kr/kg almennur tollur á frosna kjúklinga sem fluttir eru inn frá ESB, auk 18% verðtolls. Hins vegar er 299 kr. tollur á innfluttar ferskar kjúklingabringur, auk 18% verðtolls.

Helga Lára er ekki vafa um hvað gerist ef frumvarp landbúnaðarráðherra verða samþykkt. „Þá munu innfluttar kjúklingabringur flæða yfir markaðinn. Það mun gerast þó að tollar haldist óbreyttir.“

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu, segist ekki geta svarað því hvers vegna tollur á ferskum kjúklingabringum sé miklu lægri en á frosnum kjúklingi. Hann segir hins vegar ekki standa til að breyta þessu. Tollurinn sé bundinn í lög og um þetta hafi verið gerður skuldbindandi samningur við ESB. Ólafur bendir á að innkaupsverð á ferskum bringum sé um 30% hærra en á frosnum kjúklingi og það vegi upp þennan mun.

Ekki eru nema 10 ár síðan heimilað var að selja ferskan kjúkling hér á landi, en við það jókst sala á kjúklingum mikið og langstærstur hluti kjúklinga sem framleiddur er á Íslandi er seldur ferskur. Í dag neyta landsmenn meira af kjúklingum en lambakjöti. Líklegt má telja að ef kaupmenn sjá sér hag í að flytja inn kjúklingabringur frá ESB í verulegum magni muni það leiða til lækkunar á verði innlendra kjúklinga og jafnframt eru líkur á að það hafi áhrif á verðlagningu á öðru kjöti.

Helga Lára telur nauðsynlegt að Alþingi taki sér meiri tíma í að skoða áhrif þess að taka upp matvælalöggjöf ESB hér á landi. Eðlilegt sé að fresta málinu til hausts. Hún segir að kjúklingaframleiðendur hafi fengið mjög lítinn tíma til að veita umsögn um frumvarpið og menn hafi alls ekki áttað sig á áhrifum sem þetta hafi í för með sér.
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka