Það sem gerðist var óumflýjanlegt

Stefán Eiríksson.
Stefán Eiríksson. mbl.is/Júlíus

„Það sem gerðist við Rauðavatn var óumflýjanlegt. Viðbrögð lögreglu voru vel undirbúin vegna þess að vitað var á hverju var von,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, um umtalaðar aðgerðir lögreglu við Rauðavatn þegar hald var lagt á bíla atvinnubílstjóra og átök brutust út.

„Þessum hópi bílstjóra voru gefin skýr fyrirmæli um að fara og þeir fengu langan tíma til þess. Þeir fengu ítrekað lokaviðvaranir sem þeir sinntu ekki. Þarna varð taktbreyting í aðgerðum bílstjóranna, þær hættu að snúast um mótmæli og snerust um að búa til slagsmál við lögregluna. Það var beinlínis tilgangurinn með því sem þarna fór fram. Menn mættu vopnum búnir, tilbúnir að takast á við lögregluna með úðabrúsa og kveikjara. Lögreglan varð að leggja hald á bílana og fjarlægja þá af staðnum. Í kjölfarið þurfti að afmarka svæði lögreglu og handtaka bílstjóra. Fleiri bættust svo í hópinn og fóru að kasta grjóti í lögregluna, eins og frægt er orðið.“

Stefán segir ljóst að lögreglan gæti gert svo miklu meira fengi hún meiri fjármuni. „Hér á landi er öflug og sýnileg löggæsla og hægt er að takast á við stór verkefni, til dæmis rannsaka og upplýsa fíkniefnamál sem eru á Evrópumælikvarða, ef ekki heimsmælikvarða, hvað varðar stærð og umfang.

Hvað getur lögreglan gert ef hún fær meira fjármagn? Ég hef hitt fjárlaganefnd tvisvar og rætt um framtíðarsýn á sviði löggæslu og hef lagt áherslu á að mikilvægt sé að löggæslan hafi sama vægi í fjárveitingum og menntamál og heilbrigðismál.

Við búum í gríðarlega góðu og öruggu samfélagi. Íslenska lögreglan vinnur að verkefnum með lögreglunni í Ósló. Þar glímir lögreglan við meiri vanda en er hér á landi. Ofbeldisbrot eru helmingi tíðari í Ósló en á Íslandi, auðgunarbrotin eru miklu fleiri, mikið er um vasaþjófnað og rán á götum úti. Þessir glæpir eru ekki algengir hér á landi. Við vitum hins vegar af reynslunni að fréttir dagsins hjá nágrannaríkjum eru fréttir morgundagsins hjá okkur. Þessir glæpir verða stundaðir hér á landi eftir tvö til þrjú ár. Við munum sennilega sjá meira af götuvændi, vasaþjófnaði og ránum á götum úti ef ekki er brugðist við í tíma og löggæslan sett á þann stall sem hún á að vera á þegar kemur að fjárveitingum. Um leið eigum við að velta fyrir okkur þeim markmiðum sem sett eru með löggæslunni og fylgjast mjög vel með því að þeim sé náð.

Ég hef varpað fram þeirri hugmynd að laun hjá lögreglustjórum og æðstu stjórnendum lögreglunnar verði árangurstengd. Þannig hefði áhrif á veskið þeirra hvort innbrotum fækkaði í Breiðholtinu, veggjakrot minnkaði á Laugaveginum eða ofbeldisbrotum fækkaði í miðborginni. Á fundi þar sem ég ræddi þetta fann ég að mönnum fannst ekki gott ef laun lögreglustjórnarinnar yrðu tengd við það hversu margir yrðu sektaðir. Þetta er ekki það sem ég á við. Ég er að tala um hið raunverulega öryggi, að ekki sé ráðist á menn á götum úti, ekki sé brotist inn á heimili manna og eignir þeirra skemmdar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert