Þarf að breyta stjórnarskrá

Guðni Ágústsson flytur ræðu sína.
Guðni Ágústsson flytur ræðu sína. mbl.is/Frikki

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á fundi miðstjórnar flokksins í dag, að mikilvægt sé að ráðist verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni til að mæta þeim kröfum sem alþjóðlegt samstarf kallar á. Einnig þurfi að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Guðni sagði, að samhliða þessu þurfi að ráðast í aðrar efnislegar breytingar á stjórnarskránni sem framsóknarmenn hafi lagt fram frumvarp um á Alþingi og varða tryggingu þess að auðlindir landsins verði um ókomna framtíð í þjóðareigu.

„Þær breytingar er einnig mikilvægt að gera áður en til hugsanlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið kemur til að treysta samningsstöðu og hagsmuni okkar betur. Þessum nauðsynlegu breytingum ætti að vera unnt að ljúka í lok þessa kjörtímabils og upphafi þess næsta, eða árið 2011 í síðasta lagi," sagði Guðni.

Í ræðu sinni fjallaði Guðni ýtarlega um Evrópumál og sagði m.a., að það væri kristalstært að íslenska þjóðin þurfi að úrskurða hvort yfirhöfuð skuli ráðist í aðildarviðræður við Evrópusambandið og eins varðandi samþykkt eða synjun aðildar að loknum samningaviðræðum, ef til aðildarviðræðna komi.

„Af þeim sökum þarf að setja lög á Alþingi um atriði sem lúta til að mynda að þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á að setja lágmarksskilyrði um þátttöku atkvæðisbærra manna í þeim kosningum? Hversu afgerandi þarf niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu að vera? Á einfaldur meirihluti að ráða eða á að gera kröfur um aukinn meirihluta? Í kjölfar slíkrar atkvæðagreiðslu þarf einnig að liggja fyrir hversu stór hluti þingmanna þarf til að samþykkja atriði sem lúta að valdaframsali til fjölþjóðlegra stofnana. Þar er mjög líklegt að menn muni staldra við hlutfallið 2/3," sagði Guðni.

Hann sagði að afar skiptar skoðanir væru um Evrópumálin innan allra flokka, þar á meðal Framsóknarflokksins. „Við framsóknarmenn getum vissulega gert eitt. Í flokki okkar eru 12 þúsund flokksmenn. Það gæti verið fróðlegt að spyrja alla flokksbundna menn í póstspurningu út í viðhorf þeirra til Evrópumálanna," sagði Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert