Ákvörðun hefur verið tekin um að starfsemi fjarskiptafélaganna HIVE og SKO, sem nýlega voru sameinuð, verði framvegis rekin undir merkjum Tals. Starfsemi félagsins hefur verið endurskipulögð og verður megináhersla lögð á hefðbundna þjónustu vegna farsíma, heimasíma og internets með aðgangi að dreifikerfum Símans og Vodafone, segir í frétt frá fyrirtækinu.
Í frétt frá Tali segir að starfsemin verði einvörðungu grundvölluð á þjónustu og umtalsverður sparnaður á sviði hvers kyns tækniþróunar gerir félaginu kleift að bjóða heildarþjónustu, þ.e. farsíma, heimasíma og internet, að jafnaði á um 20-30% lægra verði en risarnir tveir á fjarskiptamarkaðnum, Síminn og Vodafone, hafa gert til þessa.
„Eigendur Tals eru Teymi, sem á 51% hlut og CP, sem á 49%, og er m.a í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar. Alls starfa um 40 manns hjá Tali um þessar mundir. Tal setur stefnuna á 20% hlutdeild á íslenska fjarskiptamarkaðnum innan þriggja ára og gerir jafnframt ráð fyrir því að innkoma félagsins leiði til aukinnar samkeppni á næstu misserum til hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Tali er þannig ætlað að marka þáttaskil í fjarskiptaþjónustu á Íslandi – rétt eins og Tal gerði fyrir réttum tíu árum síðan þegar einokun Landsímans var sagt stríð á hendur. Nafn Tals var lagt til hliðar við sameiningu Tals og Íslandssíma á sínum tíma en var nýlega keypt til þess að verða á nýjan leik fánaberi lægra verðs og aukinnar þjónustu á fjarskiptamarkaði.“