Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hefur ritað opið bréf til þeirra Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, og Grétars Þorsteinssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, vegna þátttöku þeirra „í markaðsherferð bílaumboðsins Heklu“ eins og Egill kemst að orði í bréfi sínu.
Tilefni bréfs Egils er blaðamannafundur í Heklu 30. apríl síðastliðinn þar sem þeir Hannes og Grétar voru viðstaddir kynningu á verðlækkun bíla hjá Heklu um allt að 17% á sumum bíltegundum en yfirleitt 9-11% verðlækkun.
„Furðu sætir að virðulegir forsvarsmenn samtaka launþega og atvinnulífs skuli við upphaf þessarar auglýsingaherferðar og með viðtölum við fjölmiðla styðja fyrirtæki eins og Heklu, sem hefur gengið á undan í verðhækkunum. Manni er hálfbrugðið því svo virðist sem þið hafið verið fengnir á blaðamannafundinn til þess eins að gera ótrúverðuga auglýsingaherferð trúverðuga,“ skrifar Egill m.a. og segir að þátttaka forystumannanna sé hvorki þeim né samtökum þeirra til sóma.