Miðstjórn Framsóknarflokksins telur eðlilegt að spurningunni um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið ´(ESB) verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð öðrum kosningum.
Þetta kemur fram í ályktun, sem samþykkt var á fundi miðstjórnarinnar í gær. Þar segir, að veiti þjóðin umboð til slíkra viðræðna yrði niðurstaða samningaviðræðna við ESB lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.
Þá segir í ályktuninni, að útfærsla á þjóðaratkvæðagreiðslum verði skoðuð frekar á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins að undangenginni umræðu um Evrópumál sem framkvæmdastjórn standi fyrir.