Atlantsskip hafa gert þjónustusamning við Eimskip um að flytja vörur með skipum félagsins. Atlantsskip munu jafnframt hætta rekstri skipanna Jan Mitchell og Kársness en viðkomuhafnir þeirra hafa verið í Hafnarfirði, Immingham í Englandi, Vlissingen í Hollandi og Esbjerg í Danmörku.
Félagið segir í tilkynningu, að það fái aðgang að siglingakerfi Eimskips í Evrópu og því muni heildarþjónusta Atlantsskipa aukast í náinni framtíð þar sem fleiri viðkomuhafnir munu bætast við. Sé breytingin á rekstrinum gerð til að mæta af krafti erfiðara árferði.
Starfsmenn Atlantsskipa eru nú um fimmtíu. Félagið er með skrifstofur í Hafnarfirði og verður áfram með alla sína starfsemi þar bæði vöruhús og gámavöll.